Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hefjist hið fyrsta

Framsýn hefur samþykkt að senda frá sér svohljóðandi ályktun um Vaðlaheiðargöng. Kallað er eftir málefnalegum umræðum um þessar mikilvægu samgöngubætur fyrir alla landsmenn.

Ályktun
Um Vaðlaheiðargöng

„Framsýn- stéttarfélag telur mikilvægt að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hefjist hið fyrsta enda liggi fyrir fullnægjandi gögn um kostnað og rekstur ganganna.  Fyrir liggur að framkvæmdin verður fjármögnuð með veggjöldum.

Ljóst er að gerð ganganna skiptir gríðarlega miklu máli fyrir vegfarendur um þjóðveg 1, þjónustusvæðið við Eyjafjörð og atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum.

Framsýn hvetur stjórnvöld til að standa við bakið á þeim aðilum sem standa að gerð ganganna og tryggja þar með framgang verksins.

Þá gagnrýnir félagið þau öfl sem talað hafa framkvæmdina niður með órökstuddum og óvönduðum málflutningi. Þess í stað kallar Framsýn eftir málefnalegum umræðum um þessa mikilvægu samgöngubót fyrir alla landsmenn.“