Gróft ofmat á tapi lífeyrissjóðanna

Þriggja manna nefnd, sem gerði úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvörðunum og lagalegu umhverfi lífeyrissjóða í aðdraganda efnahagshrunsins á Íslandi í október 2008, lauk starfi sínu sl. föstudag. Skýrsla í fjórum bindum var lögð fram á fréttamannafundi í Reykjavík. Landssamtök lífeyrissjóða samþykktu 24. júní 2010 að óska eftir því að Magnús Pétursson ríkissáttasemjari skipaði þriggja manna nefnd „óháðra, óvilhallra og hæfra einstaklinga“ til að fjalla um fjárfestingarstefnu, ákvarðanir og lagaumhverfi sjóðanna fyrir hrunið. Í framhaldinu skipaði Magnús þrjá menn í úttektarnefndina: Hrafn Bragason, lögfræðing og fyrrverandi hæstaréttardómara, sem jafnframt varð formaður, Guðmund Heiðar Frímannsson, siðfræðing og prófessor við Háskólann á Akureyri, og Héðin Eyjólfsson viðskiptafræðing.

Skýrslu nefndarinnar í heild sinni má nálgast á heimasíðu Landsamtaka lífeyrissjóða http://www.ll.is/

Skýrslan er mikil vöxtum og kemur víða við. Stjórnarmenn og starfsmenn Stapa lífeyrissjóðs fengu ekki að sjá skýrsluna áður en hún var birt þannig að lítið rúm hefur gefist til fara hana í heild sinni, með það fyrir augum að bregðast við.  Sjóðurinn mun fara yfir skýrsluna næstu daga og meta þær upplýsingar, sem þar er að finna, réttmæti þeirra og þær tillögur sem þar eru fram settar og meta hvernig og að hve miklu leyti hann telur ástæðu til að bregðast við.

Það blasir hins vegar við, við lestur skýrslunnar,  að svokallað tap lífeyrissjóðanna er mjög gróflega ofmetið í skýrslunni.  Á það m.a. við um þá umfjöllun sem er um Stapa lífeyrissjóð, auk þess sem að talsvert er af villum og rangfærslum í þeim kafla.

Þar má til að mynda nefna umfjöllun um tiltekna sölu á gjaldeyri og viðbrögð stjórnar við tilkynningu endurskoðanda til eftirlitsaðila vegna þeirra. Í skýrslunni er rangt skýrt frá málsatvikum eða því sem máli skiptir sleppt. Til að mynda er ekki skýrt frá því að tilkynningin hafi verið send eftir að endurskoðandinn hafði lokið endurskoðun, sinni, skilað endurskoðunarskýrslu og tilkynnt stjórn að engin mál væru útistandandi. Þetta hafi hann gert án þess að kynna sér þau gögn sem til voru hjá sjóðnum um þessi viðskipti. Þá er ekki frá því greint að náin samskipti voru við gjaldeyriseftirlit Seðlabankans þegar viðskiptin fóru  fram né að Seðlabankinn skoðaði viðskiptin eftir að þau höfðu verið tilkynnt og gerði ekki við þau neinar athugasemdir. Allar þessar upplýsingar hafði nefndin, en hún kýs samt að skilja við málið þannig að áhöld séu um hvort lög hafi verið brotin í þessu tilviki. Þetta er aðeins eitt dæmi um óvönduð vinnubrögð við gerð skýrslunnar.

Það er skoðun sjóðsins að mikið skorti á að nefndarmenn geri sér grein fyrir því í hverju rekstur lífeyrissjóða er fólginn, hvaða aðstæður sköpuðust á Íslandi bæði fyrir og eftir hrun, hvaða áhrif þær höfðu á sjóðina og hvaða möguleika þeir áttu til að bregðast við. (Þessi frétt er tekin af heimasíðu Stapa, www.stapi.is)