Aðalfundur sjómanna vill breytingar

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar fór fram í dag og var mæting á fundinn góð. Fundurinn stóð yfir í fjóra tíma.  Góðar umræður urðu um málefni sjómanna og skýrslu stjórnar. Gagnrýni kom fram á forystu samtaka sjómanna og ASÍ. Samþykkt var að álykta um kjaramál og öryggisfræðslumál sjómanna. Stjórnin var endurkjörin og verður Jakob Hjaltalín áfram formaður deildarinnar. Hér má sjá skýrslu stjórnar sem Jakob formaður flutti auk ályktana um kjara- og öryggisfræðslumál sjómanna. 

Ágætu sjómenn! 

Ég vil fyrir  hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska fundarmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.  Hefð er fyrir því að við komum saman í lok árs til að gera upp starfsárið sem er að líða.  Alls voru 100 sjómenn skráðir í deildina árið 2011, það eru starfandi sjómenn og þeir sjómenn sem hætt hafa sjómennsku vegna aldurs eða örorku.

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Stefán Hallgrímsson varaformaður,  Kristján Þorvarðarson ritari og í varastjórn voru Björn Viðar og Haukur Hauksson.  

Stjórnin hélt tvo formlega stjórnarfundi á árinu og einn opinn fund með smábátasjómönnum. Formaður deildarinnar situr auk þess í stjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Þar hefur hann fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við stjórn Framsýnar. Sjómannadeild Framsýnar og reyndar aðalstjórn félagsins kom jafnframt að ýmsum málum er varða sjómenn á árinu sem er að líða.

Sjómannasambandið stóð fyrir formannafundi í Stykkishólmi 21. og 22. október. Formaður deildarinnar tók þátt í fundinum. Nokkur mál voru á dagskrá fundarins. Meðal annars var skorað á innanríkisráðherra að tryggja að Landhelgisgæslan fengi nú þegar a.m.k. tvær stórar þyrlur til viðbótar núverandi þyrluflota sínum svo hún geti sinnt lögbundnu hlutverki við eftirlits- og björgunarstörf.

Samkvæmt samkomulagi sá Sjómannadeildin um heiðrun sjómanna á Sjómannadaginn á Húsavík. Árið 2011 voru sjómennirnir Óskar Karlsson og Kristbjörn Árnason heiðraðir fyrir vel unninn störf í gegnum tíðina.

Sjómannadeild Framsýnar tók á móti gömlum togarajöxlum sem stóðu fyrir árshátíð á Akureyri föstudaginn 15. júlí. Daginn eftir gerðu þeir sér ferð til Húsavíkur á Sail Húsavík auk þess að þiggja heimboð Framsýnar sem bauð um 100 sjómönnum og mökum þeirra upp á veglegt kaffihlaðborð. Heimboðið tókst afar vel og hefur félaginu borist kærar kveðjur frá forsvarsmönnum togarajaxlana fyrir góðar móttökur.   

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur töluvert leitað til formanns Framsýnar, Aðalsteins Á. Baldurssonar, um að koma að verkefnum í ráðuneytinu er varðar sjávarútvegsmál. Ráðherra skipaði hann eftir tilnefningu frá SGS í starfshóp árið 2009 um endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem lauk störfum í september 2010.  Þá ákvað ráðherra í lok ágúst 2011 að setja á laggirnar vinnuhóp til þess að vera honum til ráðgjafar um strandveiðar, línuívilnun, byggðakvóta, rækju- og skelbætur í fiskveiðistjórnunni út frá því hvernig til hefði tekist og hvort ástæða væri til að leggja til breytingar á framkvæmdinni. Í kjölfarið var Aðalsteinn svo skipaður í annan þriggja manna vinnuhóp um fiskveiðistjórnunarkerfið. Vinnuhópurinn fór yfir frumvarpið sem lagt var fram á þingi í vor og allar þær athugsemdir sem bárust frá hagsmunaaðilum við frumvarpið. Mótuð voru ný drög að frumvarpi sem tóku mið af athugsemdum við frumvarpið, stefnu ríkistjórnarinnar og niðurstöðu sáttanefndarinnar sem skilaði af sér í september 2010. Drögin hafa nú verið kynnt og eru í efnislegri meðferð hjá stjórnvöldum.

Kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og annarra samtaka sjómanna og LÍÚ var laus 31. desember 2010. Þann 9. júní 2011 skrifaði Sjómannasamband Íslands undir samning við LÍÚ um hækkun kauptryggingar- og kaupliða um 4,25% með gildistíma frá 1. júní 2011. Samningurinn er í fundargögnum fundarins. Sjómannadeild Framsýnar er aðili að samningnum í gegnum Sjómannasambandið. Samningsaðilum tókst ekki að ganga frá nýjum kjarasamningi líkt og önnur samtök launþega gerðu á árinu. Þess í stað var aðeins samið um hækkun kaupliða á þessu ári. Á þessari stundu er ekki vitað hvort eða hvenær samningar takast milli aðila. Stjórn Sjómannadeildarinnar telur því mikilvægt að álykta um stöðuna og liggja drög að ályktun fyrir aðalfundinum. Vissulega er það óþolandi fyrir sjómenn að ekki sé í gildi kjarasamningur eins og hjá öðrum launþegum landsins. Kröfugerð Sjómanna-sambandsins er í fundargögnum aðalfundarins.

Sjómannadeild Framsýnar hefur einnig lagt mikla áherslu á að gengið verði frá sérstökum kjarasamningi fyrir smábátasjómenn. Í því sambandi hefur verið unnin mikil og góð vinna við gerð samnings á vegum deildarinnar. Viðræður hafa staðið yfir í nokkra mánuði við Svæðisfélagið Klett, sem er félag smábátaeigenda hér á Norðurlandi sem nær m.a. yfir Húsavík. Viðræðurnar hafa gengið vel en samþykkt var að fresta viðræðum þar sem Sjómannasamband Íslands samþykkti að hefja viðræður við Landssamband smábátaeigenda í haust um samning á landsvísu. Umboðinu til samningagerðar var hins vegar ekki vísað til Sjómannasambandsins og er það því áfram í höndum Sjómannadeildar Framsýnar, hvað kjarasamning fyrir smábátasjómenn varðar.

Sjómannadeildin hefur gert hvalaskoðunarfyrirtækjunum á Húsavík grein fyrir mikilvægi þess að gerður verði sérkjarasamningur um störf sjómanna um borð í hvalaskoðunarbátunum. Því miður hafa viðræðurnar ekki skilað samningi en mikilvægt er að gengið verði frá samningi áður en hvalaskoðunin hefst á ný í vor. Ályktun þess efnis liggur fyrir fundinum. Þá samþykkti stjórn deildarinnar á fundi 28. desember 2011 að boða til fundar með sjómönnum á hvalaskoðunarbátum í byrjun næsta árs.

Þann 16. desember fagnaði Sjómannasamband Færeyja 100 ára afmæli sambandsins í Þórshöfn í Færeyjum. Þeir buðu formanni Framsýnar í afmælið sem heiðursgesti. Aðalsteinn þáði boðið og flutti færeyskum sjómönnum m.a. kveðjur frá húsvískum sjómönnum auk þess að færa þeim smá gjöf frá félaginu.

Rétt er að minna félagsmenn á Sjómennt. Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Þá munu samstarfsverkefni á vegum tveggja eða fleiri aðila njóta forgangs hjá Sjómennt og er hvatt sérstaklega til samstarfs sjómanna og útgerða í þessu sambandi. Það er von okkar að þessi sjóður verði vel nýttur jafnt af útgerðarfyrirtækjum sem og sjómönnum sjálfum. Þeir sem vilja fræðast frekar um sjóðinn er bent á að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna sem veitir frekari upplýsingar.

Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 4 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Snæbjörn Sigurðarson lét af störfum á árinu. Í hans stað var Orri Freyr Oddsson ráðinn. Ástæða er til að þakka Snæbirni fyrir vel unnin störf um leið og Orri Freyr er boðinn velkominn til starfa.

Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að þið séuð nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is sem er mjög virk og flytur nánast daglegar fréttir af starfsemi félagsins svo ekki sé talað um Fréttabréf stéttarfélaganna sem reglulega er gefið út.

Í lokin vil ég þakka meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári.

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar samhljóða á fundinum um kjara- og öryggisfræðslumál sjómanna.

Ályktun
– Gengið verði frá sérkjarasamningi fyrir starfsmenn við hvalaskoðun –

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar beinir þeim tilmælum til stjórnar deildarinnar og fyrirtækja í hvalaskoðun frá Húsavík að þegar í stað verði gengið frá sérkjarasamningi um kaup og kjör sjómanna á hvalaskoðunarbátum. Markmiðið verði að nýr sérkjarasamningur liggi fyrir áður en hvalaskoðun hefst aftur á vormánuðum 2012.

Hvalaskoðun frá Húsavík hefur verið vaxandi atvinnugrein á undanförnum árum og ekkert bendir til annars en að svo verði áfram. Það er hins vegar ólíðandi með öllu að ekki hafi verið gengið frá samningi um kaup og kjör sjómanna um borð í þeim bátum sem gerðir eru út á hvalaskoðun.

 Ályktun
– Um kjarasamninga sjómanna –

 Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar skorar á samtök sjómanna og Landssamband íslenskra útvegsmanna að ganga nú þegar frá kjarasamningi fyrir sjómenn en samningar sjómanna hafa verið lausir, svo mánuðum skiptir.

Við endurskoðun kjarasamninganna verði tekið fullt tillit til þeirra skattkerfisbreytinga er miða að því að fella sjómannaafsláttinn niður í áföngum á þriggja ára tímabili. Útgerðinni verði gert skylt að bæta sjómönnum upp skerðingu sjómannaafsláttar skv. skattalögum.

Þá telur fundurinn mikilvægt að friður skapist um fiskveiðistjórnunarkerfið. Í því sambandi er afar brýnt að Alþingi afgreiði sem fyrst frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sem er til umfjöllunar í þinginu. Leiðin til þess er að nota nýlegar tillögur starfshóps Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem vegvísi að nýjum lögum svo sátt náist meðal þjóðarinnar um stjórn fiskveiða við Íslandsstrendur. 

Ályktun
– Um öryggismál sjómanna –

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar telur afar mikilvægt að Slysavarnarskóla sjómanna verði tryggt nægjanlegt fjármagn til rekstrar með það að markmiði að hægt verði að bjóða sjómönnum upp á lögbundin námskeið utan Reykjavíkur. Skólaskipið Sæbjörg hefur verið bundið við bryggju í Reykjavík frá árinu 2008 og því ekki farið milli helstu útgerðarhafna landsins eins og kveðið er á um í 2. grein laga um Slysavarnarskóla sjómanna.

 2. gr. Slysavarnaskóli sjómanna skal halda námskeið fyrir starfandi og verðandi sjómenn um öryggis- og björgunarmál á helstu útgerðarstöðum landsins og annast öryggis- og slysavarnafræðslu fyrir nemendur í skipstjórnar- og vélstjórnarnámi.

Aðalfundurinn hvetur jafnframt til þess að umræða fari fram meðal hagsmunaaðila um framtíðarskipulag  öryggisfræðslunámskeiða sjómanna. Það er hvort ekki sé rétt að endurskoða núverandi fyrirkomulag með það að markmiði að færa lögbundna kennslu og endurmenntun í auknum mæli heim í byggðalögin í stað þess að beina öllum sjómönnum til Reykjavíkur á námskeið í Sæbjörgu.