Ríkisstjórnin svíkur almennt launafólk

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands samþykkti að senda frá sér eftirfarandi ályktun í dag. Formaður Framsýnar var á fundinum. Hann sagði að það hefði verið mikil reiði á fundinum í garð stjórnvalda vegna skattlagningar á lífeyri verkafólks. Ályktunin er eftirfarandi:

 „Áformum stjórnvalda um skattlagningu á lífeyrissjóði er harðlega mótmælt af framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins, enda munu þau leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og um leið auka frekar á þann ójöfnuð sem er á lífeyrisréttindum á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Fyrirhuguð skattlagning snertir eingöngu almennu lífeyrissjóðina þar sem ríkið er skuldbundið að bæta opinberu sjóðunum upp skattlagninguna með auknum inngreiðslum sem teknar verða af skattfé almennings.

 Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands harmar að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ætli að svíkja skriflegt loforð um jöfnun lífeyrisréttinda á milli almenna og opinbera lífeyriskerfisins sem gefin voru við undirritun kjarasamninga í vor.

 Þá mótmælir framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands einnig harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um að hækka bætur almanna- og atvinnuleysistrygginga helmingi minna en lægstu laun hækka þrátt fyrir loforð um að lífeyrisþegar og atvinnulausir skuli njóta hliðstæðra kjarabóta.