Farsakennd aðför að ráðherra

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, skrifar grein í Morgunblaðið í dag sem hann nefnir „Farsakennd aðför að ráðherra“. Aðalsteinn var nýlega beðinn um að taka þátt í þriggja manna vinnuhóp á vegum Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um fiskveiðistjórnunarfrumvarpið sem verið hefur til umræðu á Alþingi.

 Farsakennd aðför að ráðherra

Að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók undirritaður þátt í starfi vinnuhóps á vegum ráðuneytisins um gerð tillagna í fiskveiðistjórnun.

Verkefni okkar var að fara yfir þær umsagnir sem fram komu um það frumvarp sem lagt var fyrir Alþingi á liðnu vori og móta úr þeim ný drög að frumvarpi sem tæki ennfremur mið af stefnu ríkisstjórnarinnar og niðurstöðu sáttanefndarinnar. Engin önnur fyrirmæli eða afskipti voru sett fram frá hendi ráðherra og hafði hópurinn því frjálsar hendur hvað hann lagði til.

Nú hefur forsætisráðherra innleitt nýja tegund gagnsæis í stjórnsýslu þegar hún skilgreinir undirritaðan og alla aðra sem að þessu starfi komu sem stjórnarandstæðinga.

Það virðist aftur á móti að annarskonar gagnsæi og opnun stjórnsýslu njóti ekki vinsælda í forsætisráðuneytinu hvað sem líður skrifaðri stefnu ríkisstjórnarinnar. Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti vinnuhópi þeim sem ég starfaði í þau áform að frumvarpsdrög yrðu ekki lögð fram sem stjórnarfrumvarp heldur sem vinnuskjal sem færi til umsagnar hagsmunaaðila og alls almennings. Að því loknu yrði unnið stjórnarfrumvarp.

Sporin hræða
Umrædd vinnuskjöl eiga sér langa forsögu sem við í vinnuhóp ráðuneytisins fengum í arf í okkar vinnu. Til glöggvunar skal sú saga rakin hér.

Við valdatöku sitjandi ríkisstjórnar voru kynnt róttæk áform um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Ríkisstjórnin ákvað síðan að hefja þá vegferð með skipan svokallaðrar sáttanefndar sem undirritaður sat í. Þar áttu sæti fulltrúar atvinnugreinarinnar, hagsmunasamtaka og allra stjórnmálaflokka en formaður nefndarinnar var Guðbjartur Hannesson alþingismaður og varaformaður Björn Valur Gíslason alþingismaður. Nefndin skilaði af sér liðlega ári síðar eða haustið 2010.

Niðurstaða nefndarinnar var löng skýrsla sem túlka má á ýmsa vegu og fyrir lá að nefndarmenn gengu mjög missáttur frá borði. Daginn eftir að skýrslunni var skilað gerðu sumir þeirra sem skrifað höfðu undir hana verulegar athugasemdir við efni hennar.

Haustið 2010 hófst samráðsferli um frumvarpssmíði sem var þá í höndum sex þingmanna stjórnarliðsins en engin samstaða var í þeim hópi. Þegar ekki þóttu líkur á sameiginlegri niðurstöðu sexmenninga bættust forystumenn ríkisstjórnarinnar í hópinn. Almenn gagnrýni barst frá atvinnugreininni fyrir það að leynd hvíldi yfir vinnunni.

Ósætti í stjórnarliðinu
Vetrarlangt var setið yfir málum og loks unnið frumvarp sem fékk þá einkunn þingmanns ríkisstjórnarinnar að það væri eins og unnið af sjimpönsum, samkvæmt frétt Eyjunnar þann 3. maí síðastliðinn. Mikið ósætti var frá fyrsta degi um málið í stjórnarliðinu sem opinberaðist óbreyttum stuðningsmönnum stjórnarinnar vel í þingumræðu og á þingskjölum.

Þannig var formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis ein um sitt álit á frumvarpinu þegar það loks fékk þinglega meðferð síðastliðið vor. Fylkingaskipan í þessu gekk þvert á flokksbönd. Hinir fjölmörgu stjórnarliðar sem komu að málinu síðastliðinn vetur hlupu frá endanlegum stuðningi við málið á Alþingi og að lokum var frumvarpinu skilað aftur upp í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti með hraklegum eftirmælum formanns og varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þingsins.

Dýrkeyptur vinnufriður
Þegar málið kom upp í ráðuneyti í lok september síðastliðnum var tekin ákvörðun um stofnun vinnuhóps og var undirritaður fenginn til setu í honum án þess að vera fyrst yfirheyrður um stuðning eða andstöðu við ríkisstjórnina. Aðrir í hópnum voru Atli Gíslason alþingismaður og Jón Eðvald Friðriksson framkvæmdastjóri FISK á Sauðárkróki. Jóhanni Guðmundssyni starfsmanni ráðuneytisins var falið að vinna með hópnum.

Þau einu fyrirmæli sem við fengum var að vinna sem best úr þeim tæplega 40 umsögnum sem bárust Alþingi um málið og flestar reyndust neikvæðar í garð þess frumvarps sem legið hafði fyrir. Hér höfðum við að veganesti skýrslu sáttanefndarinnar og stefnu ríkisstjórnarinnar. Við einsettum okkur að feta einstigi, fara millileið án þess að við hefðum mikla von um að hægt væri að sætta ólík sjónarmið. En þetta var reynt og svo er annarra að dæma um hvernig til hefur tekist. Ráðherra tók ekki þátt í stefnumótun hópsins eins og áður sagði enda ekki erindi okkar að leggja fram sérstakar tillögur hans heldur faglega nálgun á viðfangsefninu.

Í ljósi reynslunnar var okkur lofað trúnaði og vinnufrið við verkið enda forsenda þess að við tækjum það að okkur og uppálagt að um væri að ræða skjal sem síðan gæti orðið grunnur að vinnu við stjórnarfrumvarp. Tími til stefnu var skammur eða liðlega mánuður en að því loknu var fyrir lagt að málið færi þegar til almennrar og opinnar kynningar í anda gagnsæi og þeirra lýðræðisvinnubragða sem sitjandi ríkisstjórn gerir að sínum í stefnuyfirlýsingu.

Jón á að játast ESB trúnni
Allt tal um að hér hafi verið unnin sú vinna sem valdið geti sárindum í stjórnarsamstarfi er með miklum ólíkindum og fer raunar ekki milli mála að hér eru spunameistarar ESB fléttunnar að verki. Í stað þess að koma hreint fram og krefjast þess að Jón gangi af stefnu VG og játist líkt og aðrir undir ESB trú er búinn til furðuleg atburðalýsing um birtingu vinnuskjala og afar vondra stjórnarandstæðinga. Með ásökunum á hendur Jóni Bjarnasyni síðustu daga hafa íslensk farsa-stjórnmál náð nýjum og óþekktum hæðum.

Aðalsteinn Árni Baldursson

 

Aðalsteinn Árni skrifar grein í Morgunblaðið í dag um árásir sem Jón Bjarnason sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hefur mátt þola undanfarið frá öðrum stjórnarliðum, m.a. forsætisráðherra. Aðalsteinn hefur starfað í vinnuhóp á vegum ráðherra um fiskveiðistjórnunarkerfið. Aðalsteinn hefur töluverða reynslu af sjávarútvegsmálum og því oft verið beðinn um að taka að sér nefndarstörf og stjórnunarstörf er tengjast sjávarútvegi. Hann starfaði m.a. lengi hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur auk þess að vera í forsvari fyrir fiskvinnslufólki á Íslandi um áratugaskeið jafnframt því að taka þátt í starfi Norræna Matvælasambandsins sem hefur innan sinna raða fiskvinnslufólk á Norðurlöndunum.  Þá sat Aðalsteinn í stjórn Útgerðarfélagsins Íshafs um tíma auk þess sem hann var áheyrnarfulltrúi í stjórn Fiskiðjusamlags Húsavíkur einnig um tíma fyrir hönd starfsmanna fyrirtækisins. Þá situr hann í dag í stjórn Fiskifélags Íslands fyrir hönd Starfsgreinasambands Íslands.