Uppbygging gervigrasvallar til umræðu á félagsfundi Völsungs

Íþróttafélagið Völsungur stóð fyrir opnum félagsfundi í kvöld um uppbyggingu á gervigrasvalli á Húsavík. Fundurinn var fjölmennur en um 60 fundarmenn tóku þátt í fundinum. Frummælendur voru Ingólfur Freysson áhugamaður um uppbyggingu gervigrasvallar og Egill Olgeirsson frá Mannvit sem fór yfir teikningar af vellinum og aðstöðu honum tengdum auk þess að koma aðeins inn á kostnaðinn við verkið.  Fram kom að endanlegar kostnaðartölur liggja ekki fyrir, þar sem ekki er búið að klára kostnaðaráætlunina. Reiknað er með að hún geti verið klár á næstu vikum. Líklegt er þó talið að kostnaðurinn við verkið verði rúmlega 200 milljónir.  Ingólfur Freysson íþróttafrömuður tók fundarmenn í sögustund varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja á Húsavík. Hann kom víða við í máli sínu og kom meðal annars inn á allan þann fjölda sem stundar knattspyrnu á Húsavík, aðstöðuna sem boðið er upp á og forvarnarstarfið sem Völsungur stendur fyrir með öflugu íþróttastarfi. Guðrún Kristinsdóttir formaður Völsungs lagði svo fram ályktun sem stjórn félagsins hafði samþykkt á fundi í dag.

Ályktun um uppbyggingu gervigrasvallar

„Stjórn Í.F.Völsungs telur afar mikilvægt að byggður verði gervigrasvöllur sem verði tilbúinn til notkunar þegar á næsta ári. Núverandi aðstæður til knattspyrnuiðkunar eru ekki boðlegar þeim mikla fjölda sem stundar íþróttina reglulega á vegum félagsins og á eigin forsendum. Æfingasvæðið er mjög illa farið og verður ekki nothæft næsta sumar. Þá er ljóst að aðalknattspyrnuvöllur bæjarins mun ekki geta tekið á móti auknu álagi, verði aðalvöllurinn eina nothæfa grassvæði á Húsavík til æfinga og keppni á komandi sumri. Afleiðingarnar munu ekki láta á sér standa fyrir iðkendur og starfsemi Völsungs.

Að mati stjórnar Völsungs er uppbygging gervigrasvallar því algjört forgangsverkefni í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Húsavík. Um þessar mundir stunda um 240 iðkendur knattspyrnu á vegum félagsins. Á hverju ári eru leiknir vel á annað hundrað leikir sem draga til sín þúsundir keppnismanna og fylgdarfólks til Húsavíkur.  Verði ekkert að gert í uppbyggingu á gervigrasvelli mun það kalla á kostnaðarsamar framkvæmdir við núverandi æfinga- og keppnisvöll sem skiptir tugum milljóna auk þess að veikja verulega starfsemi Völsungs. Sveitarfélagið þarf því að ákveða sig sem fyrst hvernig það ætlar að bregðast við þessari alvarlegu stöðu.

Full ástæða er til að vekja athygli á því að með byggingu gervigrasvallar munu knattspyrnuiðkendur að mestu fara úr íþróttahöllinni. Við það mun fjöldi tíma í höllinni losna og nýtast almenningi til heilsubótar og öðrum deildum félagsins til frekari eflingar. Þá hefur Völsungur alla tíð lagt mikið upp úr öflugu forvarnarstarfi ekki síst meðal barna og unglinga. Ein af megin forsendum þess, að svo verði áfram, er boðleg aðstaða til íþróttaiðkunar í bænum. Liður í því er uppbygging  gervigrasvallar á Húsavík.“

Þannig samþykkt á stjórnarfundi í Í.F. Völsungi 22. nóvember 2011

Eftir góðar framsögur var opnað fyrir almennar fyrirspurnir um verkið og voru Egill Olgeirsson, Guðrún Kristinsdóttir, Bergur Elías Ágústsson og Jón Höskuldsson í pallborði. Fundarmenn voru mjög áhugasamir um verkið og spurðu út í verkþættina og kostnaðaráætlunina. Einnig urðu umræður um mikilvægi Völsungs fyrir svæðið en fjöldi keppnisfólks og fylgdarliðs kemur til Húsavíkur á hverju ári til að taka þátt í mótum á vegum félagsins og sérsambanda. Í máli fulltrúa Norðurþings á fundinum kom fram að þegar Mannvit hefur klárað endanlega sína vinnu varðandi hönnun og kostnaðarmat verði málið tekið til afgreiðslu í bæjarstjórn, væntanlega eftir næstu áramót. Á þessari stundu væri ekki hægt að gefa út hvort að verkinu yrði eða ekki. Þrátt fyrir að ekki lægi fyrir ákvörðun í kvöld hvort ráðist verður í framkvæmdina á næsta ári eða ekki voru menn almennt ánægðir með fundinn í kvöld.

Um 60 fundarmenn tóku þátt í opnum félagsfundi hjá Í.F.Völsungi í kvöld.

Ungt fólk var áberandi á fundinum enda horfir það til þess að núverandi aðstaða til knattspyrnuiðkunar verði löguð með uppbyggingu gervigrasvallar.