Þakkir vegna styrks til kaupa á almenningsbekkjum.

Stéttarfélögunum hafa borist þakkarbréf frá sjúkraþjálfurum í Norðurþingi vegna þátttöku stéttarfélaganna í kaupum á almenningsbekkjum. Bréfið er svohjóðandi:

Í tilefni 70 ára afmælis Félags Íslenskra sjúkraþjálfara á síðasta ári, fóru sjúkraþjálfarar af stað með þrjú samfélagsverkefni sem hvetja almenning til aukinnar hreyfingar. Verkefnið „Að brúka bekki“ var eitt af þeim og varð það valið til framkvæmdar hjá sjúkraþjálfurum í Norðuþingi. Verkefnið felur í sér að fjölga almenningsbekkjum í sveitarfélögum landsins til hagsbóta fyrir þá sem slakir eru til gangs. 

Leitað var til margra aðila um aðstoð til að kaupa á bekkjunum en einnig studdu margi aðilar verkefnið með öðrum hætti s.s. vinnuframlagi. Viðtökur voru afar góðar hér í Norðurþingi og hafa nú verið keyptir 16 bekkir og þeim komið fyrir á Húsavík, Raufarhöfn og Kópaskeri. Bekkirnir voru formlega vígðir þann 27. september 2011.

Kortlagðar voru tvær gönguleiðir á Húsavík sem henta þeim sem lakir eru til gangs en einnig var stökum bekkjum komið fyrir utan merktra leiða. Hvergi er meira en 300 metrar á milli bekkja þar sem gönguleiðirnar eru merktar, en forsenda þess að fjölmargir treysti sér til að ganga úti er að hægt sé að tylla sér af og til.

Þessar gönguleiðir munu fá sérstaka athygli þegar kemur að snjóruðningi og hálkuvörn á veturna. Kort af leiðunum verður aðgengilegt á vef Norðurþings og á 640.is og mun einnig birtast í Skránni.

Með þessu bréfi viljum við, Sjúkraþjálfarar í Norðuþingi, þakka kærlega fyrir þann stuðning sem við fengum til þess að þetta verkefni yrði framkvæmanlegt hér í sveitarfélaginu.

Með kveðju og þakklæti 

Björg Björnsdóttir, Sjúkraþjálfun Húsavíkur
Brynja Hjörleifsdóttir, Sjúkraþjálfun Húsavíkur, Laugar og Mývatnssveit
Hrefna Regína Gunnarsdóttir, Sjúkraþjálfun Húsavíkur
Sigríður Kjartansdóttir, Sjúkraþjálfari á Kópaskeri og Raufarhöfn