Vinsamlegur fundur með ráðherra

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra var á Húsavík í gær ásamt fylgdarliði. Hann notaði daginn til að funda með starfsmönnum og stjórnendum Heilbrigðisþjónustu Þingeyinga, fulltrúum Norðurþings og þá endaði hann daginn með því að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og funda með fulltrúum Framsýnar.  

Fundurinn var vinsamlegur og komu fulltrúar félagsins ýmsum málum á framfæri er varðar velferð fólks í Þingeyjarsýslum og reyndar á landinu öllu. Meðal annars var bent á mikilvægi góðrar heilbrigðisþjónustu á svæðinu og var ráðherra beðinn um að standa vörð um þá mikilvægu þjónustu sem Heilbrigðisstofnun Þingeyinga veitir íbúum í dag. Ráðherra hafði skilning á áherslum Framsýnar. Góðar umræður urðu einnig um atvinnuleysisbótakerfið, niðurskurð hjá ríkinu, starfsemi lífeyrissjóða og Tryggingastofnunar ríkisins. Ráðherra og fylgdarlið hans gáfu sér góðan tíma til að ræða þessi og önnur mál við Framsýnarmenn.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Anna Sigrún Baldursdóttir aðstoðarmaður velferðarráðherra, Dagný Brynjólfsdóttir sérfræðingur á skrifstofu fjárlaga í Velferðarráðuneytinu og Sveinn Magnússon skrifstofustjóri Skrifstofu velferðarþjónustu í Velferðarráðuneytinu komu við á Skrifstofu stéttarfélaganna í gær til að ræða við forsvarsmenn Framsýnar.