Vilja halda viðræðum áfram á eigin forsendum

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar sem jafnframt er samninganefnd félagsins tók fyrir erindi Sjómannasambands Íslands í síðustu viku. Sambandið óskar eftir samningsumboði frá aðildarfélögum sambandsins til gerðar kjarasamnings fyrir smábátasjómenn.  Á fundi Framsýnar var samþykkt að félagið haldi viðræðum áfram við Svæðafélagið Klett félags smábátaeigenda frá Ólafsfirði að Tjörnesi um kjarasamning fyrir sjómenn á smábátum á félagssvæði Framsýnar. Viðræður aðila hafa staðið yfir í nokkra mánuði og eru langt komnar. Búið er að ganga frá flestum atriðum samningsins nema viðbótartryggingum. Samningsaðilar eiga um þessar mundir viðræður  við tryggingafélögin um tryggingavernd fyrir sjómenn á smábátum. Í ljósi þessa telur Framsýn rétt að láta á það reyna hvort félagið nái kjarasamningi við Klett á næstu vikum. Gangi það hins vegar ekki eftir kemur til greina að vísa umboðinu til Sjómannasambands Íslands.