Merkileg saga – merkilegt hús

Neðst í skrúðgarðinum á Húsavík, sunnan Búðarár, stendur Árholt fagurrautt hús með hvítum gluggum. Þetta er annað elsta íbúðarhúsið á staðnum. Árholt hefur alla tíð verið í eigu sömu ættar og á morgun, 8. september verða liðin 120 ár síðan frumbyggjarnir fluttu inn. Hulda Þórhallsdóttir býr þar í dag. Árholt er ef til vill rómantískasta hús á Húsavík, þegar á allt er litið, segir Karl Kristjánsson í fyrsta bindi Sögu Húsavíkur. Þar kemur einnig fram að  hjónin Anna Vigfúsdóttir og Sigtryggur Sigtryggsson hafi byggt Árholt. Það var svo þann 8. september 1891 sem þau fluttu í nýja húsið með tvo drengi sína, Þórhall og Vigfús Albert. Húsið var þá að ýmsu leyti enn í smíðum og telur Karl byggingarár þess vera 1889-1891. Sigtryggur Sigtryggsson hélt dagbækur, sem eru mjög merkar heimildir um veðurfar og viðburði á Húsavík þess tíma. Frumritin eru geymd í Þjóðarbókhlöðunni. Það má því með sanni segja að merkileg saga fylgi þessu merkilega húsi sem stendur við bakka Búðarár og myndar fallega umgjörð um blómlegan skrúðgarð sem teygir sig upp með ánni. Ekki er ólíklegt að slegið verði í form á morgun í Árholti og afkomendur Önnu og Sigtryggs minnist þessara  merku tímamóta með kaffibolla og meðlæti. Til hamingju með þessu merku tímamót í sögu Árholts.

Árholt er gamalt og virðulegt hús sem stendur við Búðarána á Húsavík.  Á morgun verða 120 ár frá því að flutt var inn í húsið.