Móðgun og lítilsvirðing

Megn óánægja kom fram á fundi sem Framsýn boðaði til í dag með starfsmönnum sveitarfélaga á félagssvæðinu. Á fundnum fóru starfsmenn Framsýnar yfir tilboð samninganefndar sveitarfélaga til lausnar kjaradeilu félagsins og sveitarfélaganna. Góð mæting var á fundinn og komu fundarmenn víða að úr héraðinu. Í máli fundarmanna kom fram að tilboð samninganefndarinnar væri gróf móðgun og lítilsvirðing við starfsmenn. Ekki kæmi til greina að skrifa undir tilboð nefndarinnar. Fulltrúar Framsýnar munu því fara með skýr skilaboð frá félagsmönnum inn á fund Samninganefndar sambands íslenskra sveitarfélaga sem fram fer í Reykjavík á morgun undir stjórn Ríkissáttasemjara.

Starfsmenn sveitarfélaga koma til fundarins í dag.

Mikill áhugi var fyrir fundinum í dag og komu menn m.a. keyrandi úr Mývatnssveit, Reykjadal og Fnjóskadal.