Kjarasamningur við Flugleiðahótel ehf undirritaður

Starfsgreinasambandið fh. Framsýnar og annarra aðildarfélaga hefur gengið frá samningi við Flugleiðahótel ehf. vegna sumarhótela þeirra s.s. á Stórutjörnum.  Helstu breytingar eru eftirfarandi en hægt er að nálgast samninginn á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Eingreiðsla að upphæð kr. 50.000 verður greidd út hverjum starfsmanni í fullu starfi sem er við störf í maí og miðast greiðslan við að starfsmaðurinn hafi verið í fullu starfi í mars, apríl og maí. Starfsmenn sem létu af störfum í apríl fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í mars og apríl. Starfsmenn sem hófu störf í apríl eða fyrstu fimm dagana í maí og eru í starfi í maí fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfshlutfall. Greiðslan verður greidd út ekki síðar en 1. júlí 2011.

14 ára unglingar fá nú greidd laun sem eru 67% af byrjunarlaunum 18 ára í launaflokki 5 og 15 ára unglingar fá greidd 76% af sama stofni. Við útreikninga launa skal miðast laun við það ár sem hlutaðeigandi aldri er náð.

Orlofs- og desemberuppbót verða greiddar út til viðbótar tímakaupi í dagvinnu. Þannig verður orlofsuppbótin 14,9 krónur á klukkustund 2011 og desemberuppbótin 35,44 krónur á klukkustund.  Þær hækka síðan fyrir árin 2012 og 2013.

Samningurinn gildir frá 22. júní 2011 til 31. janúar 2014 svo framarlega sem kjarasamningar SA og aðildarfélaga ASÍ verði samþykktur. Samningur þessi fylgir samningum SA við ASÍ og fellur úr gildi ef þeir samningar verða ekki framlengdir 31. janúar 2012.