Ísfélag Vestmannaeyja heiðrað

Hvatningarverðlaun Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga voru nýlega afhent í tíunda sinn. Að þessu sinni hlaut Ísfélag Vestmannaeyja hf. viðurkenninguna “ fyrir öfluga uppbyggingu í grunnatvinnuvegi á svæðinu sem skiptir sköpum um þróun og velferð samfélagsins“  eins og segir í verðlaunaskjalinu. Frá því að Ísfélagið hóf rekstur á Þórshöfn í upphafi árs 2007 hefur það fjárfest fyrir á annan milljarð króna, það er í vinnslubúnaði frystihúss og fiskimjölsverksmiðju. Auk þess byggði Ísfélagið upp 4000 tonna frystiklefa á Þórshöfn. Ísfélagið hefur aukið starfsemina á Þórshöfn jafnt og þétt frá því að fyrirtækið eignaðist Hraðfrystistöð Þórshafnar.  Forsvarsmenn Ísfélagsins á Þórshöfn sem tóku við viðurkenningunni þökkuðu fyrir hana og sögðu hana hvetja fyrirtækið til áframhalandi góðra verka á Þórshöfn.

Siggeir og Rafn með verðlaunin góðu en þeir stjórna starfsemi Ísfélagsins á Þórshöfn.