Afmælisgjöf til félagsmanna Framsýnar

Þann 14. apríl 2011 voru liðin 100 ár frá stofnun Verkamannafélags Húsavíkur, nú Framsýnar- stéttarfélags. Í tilefni af því hefur verið samþykk að færa félagsmönnum afmælisgjöf frá félaginu kr. 22.500.000,-  sem skiptist jafnt milli þeirra sem voru fullgildir félagsmenn 31. mars 2011. Það á við um þá sem greitt hafa félagsgjald síðustu 12 mánuði  svo og elli- og örorkulífeyrisþega sem greiða ekki lengur til félagsins af þeim sökum.

Hver og einn félagsmaður sem fellur undir ofangreinda skilgreiningu fær inneign kr. 10.000,- til að greiða niður útlagðan kostnað sem fellur undir reglugerð fræðslusjóðs, sjúkra- eða orlofssjóðs félagsins sbr. eftirfarandi skýringu:

Hvernig nota menn afmælisgjöfina?

Til að niðurgreiða:
Sjúkraþjálfun-sjúkranudd-heilsunudd-kírópraktor- nálastungumeðferð-dvöl á meðferðarheimilum- útfararkostnað vegna andláts félagsmanns- glasafrjóvgun-skoðun hjá Hjartavernd-hjartaleikfimi-sálfræðiaðstoð-ferðakostnað v/veikinda-gleraugnakaup-linsur-laser,augnaðgerðir-heilsueflingu-heyrnaræki-orlofshús-orlofsíbúðir-tjaldstæði og orlofsferðir á vegum félagsins.

Einnig er hægt að nota afmælisgjöfina til að eignast  ritverkið Fyrir neðan bakka og ofan. Þá eru í boði auka námsstyrkur – fæðingarstyrkur og ættleiðingarstyrkur.

Við það er miðað að afmælisgjöfin sé notuð í einu lagi og falli úr gildi 31. mars 2013 hafi viðkomandi félagsmaður ekki nýtt sér hana fyrir þann tíma. Þá er rétt að taka fram að ekki er um beina útgreiðslu að ræða til félagsmanna heldur innieign sem þeir geta notað til að greiða niður kostnað er fellur undir ofangreinda styrki.

Rétt er að taka skýrt fram að afmælisgjöfin kemur til viðbótar þeim réttindum sem félagsmenn eiga þegar í sjóðum félagsins sem er frábært.

Þegar að félagsmenn framvísa reikningum/nótum á Skrifstofu stéttarfélaganna vegna útlagðs kostnaðar býðst þeim að nota afmælisgjöfina til viðbótar réttindum þeirra til niðurgreiðslna hjá félaginu.

Kæru félagsmenn! Góður rekstur félagsins tryggir félagsmönnum þessa veglegu gjöf.

Endilega hafið samband ef eitthvað er óljóst varðandi afmælisgjöfina.  Við efumst ekki um að hún á eftir að koma að góðu gagni.

Með afmæliskveðju!
Framsýn- stéttarfélag