Árangursríkar viðræður um kjaramál smábátasjómanna

Í dag hafa staðið yfir viðræður um kjarasamning fyrir smábátasjómenn á bátum upp að 15 brúttótonnum á félagssvæði Framsýnar. Viðræðurnar milli samningsaðila fóru fram á Akureyri. Afraksturinn er að nú liggja fyrir drög að kjarasamningi. Framsýn hefur ákveðið að boða smábátasjómenn sem jafnframt eru félagsmenn í Framsýn til kynningarfundar næsta sunnudag kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Til stendur að kynna samninginn og ákveða næstu skref. Að sögn Aðalsteins formanns yrði stórt skref stigið í réttindabaráttu smábátasjómanna ef tækist að landa samningnum á næstu dögum. Slíkur kjarasamningur hefur ekki verið til fram að þessu meðal sjómanna á smábátum við Ísland.