KJARASAMNINGAR TÓKUST Í NÓTT – 200þ. á mánuði.

Eftir maranþon samningafund í nótt milli Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar, náðist loks að ljúka gerð kjarasamnings á almennum vinnumarkaði.  Fulltrúar Framsýnar voru einnig á staðnum. Kjarasamningurinn gildir til þriggja ára og innifelur krónutöluhækkanir á hverju ári, rauð strik og það mikilvægasta er að lægstu laun hækka strax í kr. 200.000. Framlag ríkisstjórnarinnar fellst í loforðum um stuðning við atvinnuuppbyggingu í landinu, sérstaklega á Bakka við Húsavík, flýtingu vegaframkvæmda og hækkun bóta atvinnulausra og öryrkja og annarra sem þurfa á bótum að halda. 

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ sagði sína samninganefnd ánægða með afrakstur næturinnar, allar meginkröfur hefðu verið samþykktar, en við gátum þó ekki fallist á meiri kauphækkanir, vegna þeirra almennu og sértæki áhrifa sem þær gætu haft á almennt verkafólk til lengri og skemmri tíma.

                Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins voru heldur snuprir eftir nóttina, Birna Einarsdóttir forstjóri Íslandsbanka og stjórnarmaður í SA, sagði það vissulega vonbrigði að laun hefðu ekki hækkað meira og launahækkanirnar væru miklu minni en t.d. hjá stjórnendum Íslandsbanka. „Viðsemjendur okkar gátu ekki fallist á meiri hækkanir, því þeir töldu þær raska þeirri sátt sem er í samfélaginu um lág laun og fátækt, en við erum ekki hætt, á næstu árum munum við hjá Íslandsbanka hækka okkar laun enn frekar og taka upp árangurstengdar greiðslur í meira mæli og síðan er bara að vona að verkafólk fylgi í kjölfarið“.

Pétur Blöndal alþingismaður var á staðnum í nótt og sagði þessar hækkanir auka veltu í samfélaginu, en það neikvæða við launahækkanirnar væri að líklega lærði fátækt láglaunafólk nú líka að eyða peningum og vegna stærð hópsins og umfangs launahækkana hefði það meiri, neikvæðari langtímaáhrif, en nauðsynleg neysluútgjöld vina hans úr fjármálaheiminum s.l. ár.

Það sem hafði úrslitaáhrif að þessi samningahrina skilaði nýjum kjarasamningi var útspil ríkisstjórnarinnar í gær, vilyrði um stuðning við atvinnuuppbyggingu í landinu, flýting vegaframkvæmda. Ekki var þó hægt að verða við kröfum um meiri framlög til mennta-, velferðar- og heilbrigðismála. Fjármálaráðherra taldi þennan kjarasamning sem slíkan ekki breyta neinu um niðurstöðu fjárlaga, því aðeins væri um að ræða tilfærslu fjármuna milli mánaða. „Samningarnir hafa þó þau megináhrif að við lofum nú stuðningi við atvinnuuppbyggingu, sem líklega mun lækka útgjöld til atvinnuleysisbóta og þannig getum við hækkað laun þeirra og öryrkja án þess að ríkið kosti meira til, hækkanirnar verða þó innan þeirra marka sem ríkið og fjármálalífið þolir“.

Jóhanna og Steingrímur sögðu þennan kjarasamning minnka þá spennu sem verið hefur á þeim vegna yfirlýsinga þeirra s.l. 30 ár um mikilvægi þess að hækka laun og bætur, þá sérstaklega hjá þeim sem lægri launin hafa.

Ekki náðist í formann Framsýnar eða aðra stjórnar- og trúnaðarráðsmenn í morgun þar sem þeir eru allir sofandi eftir afrakstur næturinnar. Vonandi vakna þeir þegar líða tekur á daginn.  Það þýðir nefnilega ekki að sofa á verðinum þegar kjör verkafólks eru annars vegar.