Fulltrúar Framsýnar hafa undanfarið unnið að því að ganga frá kjarasamningum fyrir félagsmenn. Í gær var fundað áfram með fulltrúum smábátaeigenda um kjarasamning fyrir sjómenn á bátum undir 15 brúttótonnum. Viðræðurnar ganga vel og er samningurinn á lokastigi. Í dag taka fulltrúar Framsýnar þátt í kjaraviðræðum við ríkið en öll aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands standa saman að þeim samningi. Á morgun mun stjórn Landssambands ísl, verslunarmanna koma saman og fara yfir stöðu kjaraviðræðna. Að sjálfsögðu verður fulltrúi Framsýnar á staðnum. Á morgun verða einnig viðræður milli Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins um sérmál hópa innan félagsins. Í athugun er einnig að fulltrúar Framsýnar fundi einnig með Launanefnd sveitarfélaga á morgun vegna starfsmanna hjá sveitarfélögum á svæðinu. Á fimmtudaginn verða síðan viðræður milli bræðslumanna á Þórshöfn og fulltrúa Ísfélags Vestmannaeyja á Þórshöfn. Sem sagt, allt á fullu í kjaraviðræðum hjá Framsýn og Verkalýðsfélagi Þórshafnar sem fylgir Framsýn í þeim viðræðum sem eru í gangi.
Þessi skemmtilega mynd er tekin fyrir nokkuð mörgum árum af formanni og varaformanni Framsýnar sem þá gengdu þessum embættum hjá Verkalýðsfélagi Húsavíkur. Þau eru um þessar mundir að vinna að gerð kjarasamnings fyrir félagsmenn.