Stutt hugleiðing um Landsbyggðina, auðlindir & Skatta

Frá hruni hins íslenska bankakerfis hefur margt breyst. Staða íslenska ríkisins er með þeim hætti að talið hefur verið nauðsynlegt að auka skattbyrði á íbúa og fyrirtækja landsins. Að auki hefur verið gripið til svokallaðra hagræðingaraðgerða þar sem skorið hefur verið niður fjármagn til velferðarmála og framkvæmda á vegum ríkisins.

Tillögur þess efnis að eðlilegt sé að auðlindir samanber fiskurinn í sjónum og orkuauðlindirnar skulu vera sameign þjóðarinnar hafa verið mikið til umræðu. Að auki er rætt um að þau fyrirtæki sem nýta auðlindirnar skulu greiða gjald fyrir þ.e. að þjóðin skuli njóta arðs af auðlindum sínum í formi svokallaðrar auðlindarentu. Góðan rökstuðning er að finna fyrir auðlindarentu í hagfræðikenningum og í sjálfu sér er ekki mikill ágreiningur um þau mál meðal þjóðarinnar. Hversu mikil rentan skal vera er aftur á móti álitamál. Komi til þessarar skattheimtu, er rétt að benda á að stærstur hluti orkuauðlindanna er á landsbyggðinni og sjávarbyggðirnar hafa haft og hafa enn verulegan hluta af afkomu sinni byggða á fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða. Vissulega er það þannig að flestir íbúar landsbyggðarinnar hafa verulegar áhyggjur á af aukinni skattbyrgði, sem að mestum hluta leggst á fyrirtæki landsbyggðarinnar. Hvað áhrif slíkt mun hafa og ekki síst, hvar fjármunirnir verða nýttir.

Áhyggjur eru einfaldlega þær að framangreindar hugmyndir munu að öllum líkindum leiða til þess fjármagn verði fært frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Bent skal á að Vífill Karlsson hagfræðingur hefur sýnt fram á að skatttekjur af landsbyggðinni eru u.þ.b. tvöföld sú upphæð sem ríkið eyðir á landsbyggðinni.

Á mannamáli þýðir þetta einfaldlega að af hverjum tveimur krónum sem landsbyggðarfólk borgar í skatt fer ein króna í að byggja upp opinbera þjónustu í heimabyggð en önnur króna í sameiginlega þjónustu í Reykjavík. Ef farið er aðeins dýpra í þess umræðu hefur málum verið þannig fyrir komið að 75% af ráðstöfun tekna ríksins er á höfuðborgarsvæðinu en aðeins 25% utan þess. Um 42% af þeim fjármunum sem ríkið aflar með sköttum kemur frá höfuðborgarsvæðinu, en 58% utan þess.

Þessar staðreyndir setja umræðuna um ráðstöfun opinbers fjármagns í nokkuð annað samhengi.
• Að umræða um landsbyggðina sem bagga skuli vera til staðar.
• Að 80% af hagræðingu heilbrigðiskerfisins fari fram á landsbyggðinni.
• Að litlir framhaldsskólar út á landi fá allt að 23% hagræðingarkröfu meðan meðaltalið er 6%.
• Að sýslumannsembætti og lögregla á landsbyggðinni séu á mörkum þess að geta sinn sinni þjónustu.
• Að umræða um auðlindagjald af náttúruauðlindum skuli fara fram án þess að um það sé rætt hvernig og hvar fjármunirnir verða nýttir.
• Varðandi vegaframkvæmdir á landsbyggðinni get ég ekki annað en vitnað í Þórodd Bjarnason hjá Háskólanum á Akureyri og hans þekkta dæmi um Bolungarvíkurgöngin og þá neikvæðu umræðu sem hefur farið fram um þá framkvæmd, en það hljóðar nokkurnveginn svo; „Bolungarvíkurgöngin eru öðrum þræði til þess að Bolvíkingar geti nýtt sér þjónustu sem þeir eru búnir að borga fyrir áratugum saman, inni á Ísafirði og suður í Reykjavík. Kostnaður við þau er þannig kostnaður við heilbrigðismál, menntamál, félagsmál osfrv. sem íbúar svæðisins greiða með sköttunum sínum. Ef menn vilja hins vegar reikna útgjöld til vegamála eftir höfðatölu væri réttast að gera það með aðra liði fjárlagafrumvarpsins líka. Niðurstaðan er sláandi, því þá skuldar Reykjavík u.þ.b. 4,5 milljarða til Vestfjarða á yfirstandandi fjárlagaári.“

Að mínu mati gefst þó ákveðið tækifæri, ef til gjaldtöku kemur fyrir nýtingu á auðlindum sjávar og orku. Ákaflega mikilvægt er að þess verði gætt að stór hluti þeirra fjármuna skili sér til aftur til landsbyggðarinnar m.a. til að styrkja heilbrigðisstofnannir, framhaldsskóla, sýslumannsembætti og lögreglu, uppbyggingu innviða og svo mætti áfram telja. Ef það gerist ekki, er ég hræddur um að íbúar landsbyggðarinnar geri það sama og þeir hafa gert undanfarinn ár, elti skattana sína, enda er þannig mestan ábata að hafa til lengri tíma litið. Þeirri þróun þarf að snúa við, landi og þjóð til heilla.

Bergur Elías Ágústsson,
Bæjarstjóri Norðurþings